Aldur og efni handrita

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Þýðingar helgar: Frásagnir úr biblíunni og trúarritum voru þýddar og útskýrðar. Myndir gegndu hlutverki, minntu á efni frásagnanna, skýrðu þær eða sýndu betur. Myndröð af hluta sköpunarsögunnar, úr Teiknibókinni AM 673 a III 4to, frá 1330-1500.

Við upphaf ritaldar
Líkt og víðar í Evrópu náði ritmenning kristninnar brátt fótfestu á Íslandi og fleira var skráð á bækur en guðsorð. Frásagnir í ritheimildum og handritavarðveislan, þ.e. aldur og efni elstu varðveittu texta á móðurmáli, eru til marks um hvernig hún náði til fleiri sviða samfélagsins. Í Íslendingabók Ara fróða frá fyrri hluta 12. aldar segir af ritun landslaga á veturinn 1117-18 og er það elsta heimild um að innlendur fróðleikur úr munnlegri geymd hafi verið settur á bók.

Með skráningu laganna var þekking lögsögumannsins, sem gegndi helsta embætti hins munnlega samfélags, og vald til að úrskurða um réttmæti lagagreina fært til þeirra sem kunnu skil á ritmálinu, og loks til lögbóka í Skálholti. Upphaf bókritunar á Íslandi er oft miðað við þennan atburð en sennilegt þykir að bóklærðir Íslendingar hafi stungið niður penna fyrr, s.s. við gerð tíundarlaga 1096/7, þó engar heimildir staðfesti það.

Fyrsta málfræðiritgerðin
Um miðja 12. öld skrifaði óþekktur Íslendingur, nefndur Fyrsti málfræðingurinn, lærða ritgerð sem er einstök heimild um málið á þeim tíma, einkum hljóðkerfið, og ritun í árdaga íslenskrar bókmenningar. Þar kemur einnig fram hvað sé skráð í bækur í öðrum löndum: „Í flestum löndum setja menn á bækur annað tveggja þann fróðleik er þar innan lands hefir gjörst eða þann annan er minnisamligastur þykir, þó að annars staðar hafi heldur gjörst, eða lög sín setja menn á bækur hver þjóð á sína tungu.“ Lög, annálar og króníkur yfir minnistæða atburði, voru yfirleitt með því fyrsta sem skráð var á móðurmáli í Evrópu.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Lög: Þjóðveldislögin, nefnd Grágás, giltu frá um 930-1263. Annað aðalhandritið, Konungsbók Grágásar Gks. 1157 fol, frá um 1250.

Íslenskt stafróf og ritun á móðurmáli
Fyrsti málfræðingurinn setti Íslendingum stafróf og útbjó ýmis sértákn til að hægt væri að tákna öll hljóð málsins í skrift. Hann leit til enskra fyrirmynda, en þar var fyrir eldri kristni og blómleg ritun á móðurmáli, og taldi verkið brýnt þar sem ritun á móðurmálinu, ‘danskri tungu’, væri orðin algeng: „til þess að hægra verði að rita og lesa sem nú tíðist og á þessu landi bæði lög og áttvísi eða þýðingar helgar eða svo þau hin spaklegu fræði er Ari Þorgilsson hefir á bækur sett af skynsamlegu viti.“

Orð Fyrsta málfræðingsins eru býsna vel þekkt og þykja merk heimild um þá texta sem ritaðir voru á Íslandi á hans dögum. Sértáknin náðu sum fótfestu í skrift en enginn varðveittur texti fer þó í einu og öllu eftir tillögum hans.


Þýðingar helgar

Latína var tungumál kirkjunnar og allar messubækur á latínu. Af þeim lærðu prestlingar messuhaldið en til að boða og útskýra kristna trú varð að nota mál sem fólkið í landinu skildi. Undir þýðingar helgar falla þeir textar sem voru fyrst ritaðir á móðurmáli, þýddar skýringar á efni biblíunnar og sögur af heilögum mönnum sem sýndu trúarstyrk þeirra. Meðal allra elstu handritaleifa er brot úr hómilíubók, AM 237 a fol. frá því um 1150, en hómilíur eru predikanir með guðfræðilegum skýringum sem prestar fluttu söfnuði sínum.

Þýðingum helgum má reyndar skipta í tvennt, annars vegar frásagnir en hins vegar rit er varða kristna trú- og siðfræði. Forn merking orðsins ‘þýðing’ er útlistun eða skýring texta og mörgum þykir sennilegt að orð Fyrsta málfræðingsins vísi einmitt til þeirra útskýringa og túlkana á ritningunni sem voru lesnar eða fluttar við trúboð og messuhald. Þýðingar frásagna, einkum helgisagna sem notaðar voru við að boða lesendum og áheyrendum kristinn hugmyndaheim, voru líka færðar snemma í letur.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Ættvísi: Í Landnámu eru raktar ættartölur og þær koma víðar fyrir s.s. í Íslendingasögum og samtímasögum. Fróðleikur um ættir manna frá því fyrir landnám, að líkindum tengdur eignarhaldi og rétti til valda, hefur varðveist í landinu. Elsti varðveitti Landnámutexti er í Hauksbók AM 371 4to, frá upphafi 14. aldar.

Lög og ættvísi
Elsta varðveitta handritsbrot úr Grágás er tímasett upp úr miðri 12. öld. Orð Fyrsta málfræðingsins um að lagaritun sé hafin nokkru áður eru sem fyrr segir studd frásögn Íslendingabókar – sem er dæmi um „hin spaklegu fræði“ Ara fróða. Hún er aðeins til í pappírsuppskriftum frá 17. öld og eina ritið sem honum er eignað með vissu. Líklegt þykir að Ari hafi einnig tekið saman fróðleik um landnám Íslands, líkt og þekktur er úr Landnámu. Þar, og miklu víðar í fornritum, eru ættrakningar af ýmsu tagi, ættir Íslendinga (höfðingja, presta og biskupa) eða erlendra konunga, en ekki hafa varðveist sérstök ættartölurit, eða ættvísi (áttvísi), frá elstu tíð.

Ættvísin hafði hagnýtt og félagslegt gildi, varðaði t.d. eignarhald og rétt til valda, og hefndarskylda, framfærsluskylda og hjúskaparleyfi miðuðust við skyldleika fólks, að fimmta lið. Ættartengsl skýra líka jafnt bandalög og togstreitu í sumum frásögnum, t.d. Íslendingasögum og Sturlungu.

Spakleg fræði
Fræði eða þjóðarsögur, líkt og presturinn Ari fróði skráði í Íslendingabók, voru yfirleitt samin á latínu í öðrum löndum. Ritgerð Fyrsta málfræðingsins er sjálf annað dæmi um fræðaskrif um miðbik 12. aldar, sprottin úr vestrænni lærdómshefð, og fellur undir málfræði, grammatica, sem tilheyrði hefðbundnum latínulærdómi. Málfræðirit voru því yfirleitt skrifuð á latínu, máli kirkju og lærðra manna. Ari og Fyrsti málfræðingurinn skrifa fræði sín á eigin tungu, verk þeirra og viðfangsefni virðast því miðuð við innlenda yfirstétt, lærða klerka og höfðingja. Strax á 12. öld virðast Íslendingar skrifa öllu meira á móðurmáli, en víða var gert í lærðum ritum Evrópu, e.t.v. þá einkum fyrir sjálfa sig og samherja á vestnorræna málsvæðinu fremur en lærða íbúa meginlandsins.

Hvernig er handritageymdin?
Elstu varðveittu handrit eða handritabrot eru tímasett um miðbik eða seinni hluta 12. aldar. Efni þeirra er nokkuð fjölbreytt. Þó allflest innihaldi kristilega texta af erlendum uppruna, hómilíutexta og annað guðrækilegt efni, finnast einnig brot úr lagaskrám og fræðiritum. Alls teljast þetta leifar u.þ.b. 25 verka frá hendi rösklega 30 skrifara. Elstu brot af lagatextum Grágás, lögum þjóðveldisins, eru frá um 1150-75 og 1200-1225 (AM 315 d og c fol.) en frá sama tíma eru elstu færslur í tveimur máldögum er varða kirkjuna í Reykjaholti (Reykholti) og Þingeyraklaustur (Reykjaholtsmáldagi og AM 279 a 4to).

Rit um stjörnufræði, sólargang, tunglkomur, mánuði og misseraskipti voru snemma þýdd. Elsti texti er varðar tímatal eða rímfræði og skyld efni er rímfræðiritgerð í fjórða og elsta hluta GKS 1812 4to, frá um 1180. Handritavarðveislan styður því býsna vel orð Fyrsta málfræðingsins um texta á móðurmáli um miðbik 12. aldar.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Fræði: Ari fróði skráði sín spaklegu fræði á 12. öld en tímatalsfræði, málfræði, stjörnufræði, sagnfræði og dýrafræði voru snemma þýdd og skráð á móðurmáli. Fíll úr náttúrufræðiritinu Physiologus í AM 673 a II 4to, frá því um 1200.

Kristinn hugarheimur í þýðingum
Þýðingar úr latínu eru alls ekki bundnar við norrænt mál og mun víðar í Evrópu þýddu kirkjunnar menn ýmis rit á eigin tungu, m.a. á fornsaxnesku, fornensku og fornfrönsku. Þegar aðlögun norrænu málanna að kristnum hugtaka- og orðaforða hófst var m.a. sótt til Saxa og Engilsaxa, sem höfðu þá verið kristnir í nokkrar aldir, og norrænir menn áttu talsvert samneyti við. Í fornensku og fornsaxnesku var orðaforði sem gott var að laga að norrænni tungu, s.s. prestur, munkur, nunna, engill, guðspjall eða synd. Í íslenskt ritmál komu t.d. sagnirnar ‘lesa’ og ‘skrifa’ úr saxnesku (sbr. þ. lesen, schreiben) en sagnirnar ‘ráða’ (í fornu máli) og ‘rita’ úr fornensku (sbr. read, write).

Þýðendur tókust á við bæði orðfæri textans og hugmyndaheim hans, til að færa hann yfir til viðtakendanna, og smíðuðu orð yfir fjöldamörg latnesk heiti, siðferðileg, trúfræðileg eða heimspekileg. Gömul orð fengu nýja merkingu, ný voru mynduð og eflaust urðu til mismunandi og mislanglífar þýðingar orða og texa. Varðveittar þýðingar eru vitnisburður um að í landinu voru menn sem höfðu tileinkað sér nýjan hugsunarhátt og fundið honum orðastað á eigin tungu. Við það eignast tungumálið nýjan hugtakaheim.

Þýdd alþýðleg fræðirit
Sumar þýðingar má telja til alþýðlegra fræðirita eða alþýðlegra útgáfna af lærðum bókmenntum, ætlaðar þeim sem ekki kunnu latínu. Þær miðluðu þekkingu og báru strauma úr öðrum menningarheimum til Íslands. Mörg latínurit miðalda voru þýdd á allflest tungumál Vesturlanda, t.a.m. eru til ýmsar fornenskar eða fornfranskar þýðingar af sömu verkum og varðveittust hér.