Notkun bókfells
Bókfell var ekki einungis notað í bækur erlendis því samkvæmt heimildum hefur það einnig verið notað í trommur og önnur hljóðfæri. Með því að bleyta bókfellið undir lok vinnslunnar og þurrka það á nýjan leik var hægt að fá gagnsætt bókfell sem var sett í sjónlinsur og glugga. Dæmi voru um að bókfell væri nýtt sem veggklæðning sem síðan var hægt að skreyta eða mála á myndir. Síðast en ekki síst var bókfell oft endurunnið með því að skafa af því letrið og skrifa á það að nýju. Til eru uppskriftir að efnum sem bera má á skrift í handritum til að leysa upp blekið.

lla lyktandi efni við afhárun
Afhárun húða hefur verið fremur sóðalegt verk þegar illa þefjandi efni á borð við þvag og hundaskít voru notuð við hana. Í sumum borgum erlendis settu yfirvöld reglur þess efnis að staðsetja yrði skinnaverkun í útjaðri byggðarinnar og var það líklega vegna lyktarinnar sem fylgdi henni. Verkunin hefur því e.t.v. ekki þótt sérlega þrifalegt starf en hún krafðist engu að síður mikillar verkkunnáttu og var mikilvæg fyrir bæði kirkjuleg og veraldleg yfirvöld sem þurftu á bókfelli að halda í starfsemi sína.

Vellum og parchment
Fínasta gerð af bókfelli gekk á sínum tíma undir nafninu vellum þó það hafi síðar verið notað um allt bókfell til jafns við orðið parchment. Orðið sprettur af fornfranska orðinu vel sem þýðir kálfur. Í raun virðist einkennilegt að orð yfir kálfskinn skuli notað um fíngerðasta bókfellið þar sem kálfskinn er yfirleitt grófara en skinn lamba og geita. Skýringuna má e.t.v. finna í orðum málara smámynda, sem skrifaði um 1600 að í þær ætti að nota virgin parchment, þ.e. skinn sem aldrei hefði verið hárugt. Hann hefur að líkindum átt við annað hvort nýfædda kálfa eða jafnvel kálfa á fósturstigi (andvana fædda) sem hafi gefið af sér fínasta skinnið. Ef falast hefur verið eftir skinni af svo ungum dýrum er kálfurinn eina tegundin sem nýtileg væri stærðarinnar vegna. Þessi tilgáta fær einnig stuðning af staðhæfingu skosks bókfellsgerðarmanns sem hélt því fram að vellum væri unnið úr kálfum á fósturstigi eða mjólkurkálfum.