Hvað var skrifað fyrst?

Latína var tungumál kirkjunnar og allar messubækur voru þess vegna á latínu. Prestar þurftu þar að auki að lesa yfir söfnuði sínum útskýringar á biblíunni og sögur af heilögum mönnum sem voru sagðar sem dæmisögur um trúarstyrk þeirra. Þessar skýringar og sögur voru þýddar á íslenska tungu og síðan skrifaðar niður.

Fórn Abrahams í handriti sem kallast Stjórn sem hefur að geyma þýðingar úr gamla testamenntinu og er með fegurstu íslensku handritum.

Kristni færði okkur kunnáttu í skrift og bókagerð sem fljótlega var notuð til að geyma fleira en guðsorð. Í Íslendingabók Ara fróða frá fyrri hluta 12. aldar er fyrst getið um lagaritun hér á landi, veturinn 1117-18, og er það elsta heimild um að bók hafi verið trúað fyrir þeim fróðleik sem áður var varðveittur í minni manna.

Um miðja 12. öld skrifaði óþekktur maður sem kallaður hefur verið fyrsti málfræðingurinn ritgerð til að útbúa íslenskt stafróf og segir það nauðsynlegt vegna þess hve ritun á íslensku sé orðin algeng. Hann fjallar um hvað skrifað sé á þjóðtungum í öðrum löndum og nefnir skrif um lög og sögulega atburði (annála), en telur síðan upp það sem skrifað er um á Íslandi á hans dögum: guðsorð, lög, fræði og ættvísi.

Fræði eins og Ari fróði Þorgilsson skrifaði voru yfirleitt skráð á latínu í öðrum löndum og skrifuð af prestum. Strax á 12. öld lítur því út fyrir að Íslendingar hafi skrifað meira á þjóðtungu en gert var í útlöndum.

Elstu varðveittu handritin með íslenskum texta eru talin vera frá síðari hluta 12. aldar. Það eru mest kristilegir textar, en líka lög og fræði sem styður orð fyrsta málfræðingsins um allt nema ættfræðina. Snemma var farið að skrifa um stjörnufræði sem fjalla um sólargang, tunglkomur, mánuði og misseraskipti en fræði af þessu tagi má finna í handriti frá 1187.


© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima