Fjórar greinar
|
Guðsorð: Útskýringar á biblíutextum og þýddar sögur af heilögum mönnum voru skrifaðar á íslensku og lesnar upp til að efla kristni meðal fólks því margir voru ólæsir. Þess vegna voru sögur líka sagðar með myndum sem skýrðu efni biblíunnar eins og þessi mynd af sköpunarsögunni sem er úr Íslensku teiknibókinni AM 673a III 4to frá 15. öld. |
|
Lög: Íslendingar stofnuðu Alþingi árið 930 og settu sér lög. Elstu lögin, þjóðveldislögin hafa verið nefnd Grágás. Fyrst voru lög geymd í minni en fljótlega fóru menn að skrá þau á skinn. Í Grágás er stuðlasetning algeng sem bendir til munnlegrar varðveislu. Myndin er úr öðru aðalhandriti gömlu þjóðveldislaganna, Kongungsbók Grágásar Gks. 1157 fol frá því um 1250. |
|
Fræði: Íslendingar skráðu snemma sagnfræði, málfræði, stjörnufræði, tímatalsfræði og dýrafræði. Þessi fíll er í alfræðibókinni Physiologus AM 673a I 4to frá því um 1200, náttúrufræðiriti sem samið var í Alexandríu á fyrstu öldum eftir Krist. Það fjallar einkum um furðulega eiginleika ýmissa dýra, raunverulegra eða úr heimi þjóðsagna. Ritið var mjög snemma þýtt á íslensku og er til í handritsbrotum frá því um 1200. |
|
Ættvísi: Ættartölur eru raktar í Landnámu en koma fyrir í mörgum Íslendinga sögum. Það bendir til þess að töluverður fróðleikur hafi verið til í landinu um ættir manna frá því fyrir landnám þó hann hafi ekki varðveist í sérstökum ættarskrám. Myndin er af elstu varðveittu Landnámu í Hauksbók AM 371 4to frá fyrri hluta 14. aldar. |
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima