Sögusviðið

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Ísland byggðist seint enda var þróun í siglingatækni og skipasmíðum forsenda viðamikilla fólksflutninga yfir Atlantshafið. Úr lagahandriti, Jónsbók, Gks. 3269 a 4to, frá fyrri hluta 14. aldar.

Í árdaga Íslandsbyggðar
Um aldir varðveitti fólk allra handa fróðleik um samfélag sitt og sögu í minni sér og miðlaði með frásögn til annarra. Þegar Ísland byggðist, síðast landa í Evrópu, flutti landnámsfólkið með sér lög sín og siðareglur, trúarbrögð, hefðir og helgisiði. Það kunni skil á uppruna sínum og ætterni en líka öðrum fróðleik, þ.m.t. kvæðum og sögnum, sem höfðu e.t.v. varðveist í munnlegri geymd kynslóð fram af kynslóð. Á þessum tíma áttu germanskar og norrænar þjóðir sér sameiginlegt skrifletur, rúnir, sem hafa fundist víða á Norðurlöndum, á Bretlandi og í Þýskalandi. Einungis fáar rúnaristur hafa þó fundist frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Forsendur víkingaferða og landnáms
Landnám Íslands hófst í framhaldi af víkingaferðum norrænna manna. Ýmsar samverkandi ástæður hafa verið taldar forsenda siglinga þeirra vítt og breitt um jafnt úthöf sem skipfærar ár, í kaup- og ránsferðum og síðar til landvinninga eða landnáms á nýjum svæðum. Góður skipakostur og þróun í siglingatækni voru lykilatriði fyrir framrás norrænu sæfaranna. Þeir áttu vel haffær skip, hraðskreið langskip hentuðu vel til hernaðar og siglinga á ám og í grunnsævi en knerrir voru kjörnir til flutninga og úthafssiglinga.

Undir lok 7. aldar efldist verslun milli landa í Norðvestur-Evrópu. Í kjölfarið risu verslunarstaðir (kaupangar) við Norðursjó og eftirspurn varð eftir skinnavöru frá Norðurlöndunum. Á síðari hluta 8. aldar jukust því siglingar og viðskipti norrænna manna við nágrannalönd sín í Evrópu. Á þeim tíma stuðlaði ríkjandi hugmyndafræði á Norðurlöndum ef til vill að því að ungir menn öfluðu sér reynslu, fjár og frama utan heimahaganna og ýtti einnig undir hermennskuanda meðal þeirra. Í norrænni trú virðist vopndauði t.d. mun eftirsóknarverðari örlög en dauði á sóttarsæng, ef marka má frásagnir úr norrænni goðafræði af sæluvist vopndauðra í Valhöll við eilífa bardaga og veisluhöld. Kaupskapur og víkingaferðir gátu því verið kjörinn vettvangur fyrir norræna menn sem vildu öðlast frama og fé.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Norrænir sæfarar fóru víða. Kortið sýnir hversu víða norrænir sæfarar fóru á víkingatímanum og hvaða landsvæði þeir byggðu. (Mynd af Wikipedia)

Norrænar byggðir og landnám í vestri
Á víkingatímanum fóru norrænir menn feikivíða, allt frá Hvítahafi í norðri (Bjarmaland) til Norður-Afríku í suðri, Rússlands (Svartahaf og Kaspíahaf) í austri og Norður-Ameríku í vestri (Grænland, Vínland). Landvinningar þeirra í vesturátt hófust um 800 þegar þeir settu niður byggðir í Hjaltlandi og á Orkneyjum, þar sem keltneskt fólk var fyrir, og námu land í Færeyjum. Nokkrum áratugum síðar hófst norræn búseta á Suðureyjum og Mön sem þá voru einnig byggðar keltnesku fólki. Undir lok 9. aldar hófust flutningar fólks frá Hjaltlandi, Orkneyjum og Vestur-Noregi til Kataness, nyrst í Skotlandi, og var sú byggð einnig sett niður meðal keltneskra íbúa en undir stjórn Orkneyjajarla. Upphaf landnáms á Íslandi er tímasett um 870, norræn byggð á Grænlandi hófst undir lok 10. aldar og um aldamótin 1000 fundust Helluland, Markland og Vínland í Norður-Ameríku. Þar gerðu norrænir menn tilraun til búsetu en urðu frá að hverfa.

Aukin tengsl við kristna Evrópu
Norrænir sæfarar sem gerðu árásir á íbúa kristinna landa í Vestur-Evrópu á 9. og 10. öld, settu þar líka niður byggðir sínar og komust í kynni við kristna trú. Er fram liðu stundir tóku íbúar norrænu landanna við kristni sjálfir og þar spruttu upp klaustur og skólar, sams konar stofnanir og verið höfðu skotmörk víkinganna. Eftir að kristin ritmenning hélt innreið sína hófu bóklærðir Norðurlandabúar að skrifa texta á bókfell með bókstöfum. Útbreiðsla rittækninnar á Íslandi varð þó með nokkuð öðru sniði en víða annars staðar í Evrópu.

Með kristnitöku Íslands, árið 1000 (eða 999), urðu tímamót í menningar- og menntalífi landsmanna, rétt eins og í öðrum norrænum löndum sem kristnuð voru um svipað leyti. Eftir að kristin trú var lögtekin á Alþingi, árlegu þingi fyrir landið allt, taldist Ísland formlega kristið. Hins vegar átti þorri íbúanna þá e.t.v. eftir að tileinka sér kristna trú, hugmyndafræði hennar, heimsmynd, siðferðismat og mannskilning. Sú hugarfarsbreyting hefur tekið nokkurn tíma. Trúskipti hafa varla orðið í einni svipan heldur smám saman eftir því sem kristin trú festi rætur í hugum fólks og skipulag komst á starfsemi og hlutverk kirkjunnar.

Kristin bókmenning og lærdómur
Kristni var útbreidd og boðuð fyrir tilverknað orðsins, ritningin var bók allra bóka. Mannfólkið hafði löngu áður náð tökum á að festa orð, og þar með hugsun sína, m.a. um vísindi, listir og allra handa fróðleik, á haldbetra efni en svo að það hyrfi um leið og hljómur raddar þagnaði eða minni brysti. Þá tækni tók kristin kirkja snemma í sína þjónustu og átti bóklistin sinn þátt í útbreiðslu kristinnar trúar í Evrópu, löngu áður en fyrsta íslenska kirkjan var reist. Á miðöldum áttu kirkjan og skólar á Vesturlöndum tungumálið sameiginlegt, biblían og flest lærdómsrit voru skráð á latínu, þar á meðal rit kirkjufeðranna. Latínuna, sem er stundum nefnd bókmál í fornum textum, þurfti að kunna listavel, ekki var nóg að lesa málið og snúa því á eigin tungu, ef vel átti að vera þurfti einnig næga færni til að setja saman bækur á latínu.