Um vefinn

Handritin heima er fræðsluefni á vef um íslensk handrit og menningarsögu sem verið hefur í smíðum um nokkurt skeið. Verkið er unnið í samvinnu einkaaðila og stofnana sem tryggja vandað og vel útfært fræðsluefni. Að verkinu standa höfundarnir, Laufey Guðnadóttir og Soffía Guðný Guðmundsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar, Námsgagnastofnun og Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir vefráðgjafi. Þróunardeild menntamálaráðuneytis hefur styrkt verkið og skráð það í gagnagrunninn Menntagátt.

Stofnun Árna Magnússonar hefur veitt höfundum vinnuaðstöðu og hýsir vefinn á vefþjóni sínum. Auk þess hefur stofnunin leyft birtingu handritamynda endurgjaldslaust.


Meginmarkmið
Að kynna þá menningarhefð sem finna má í íslenskum handritum og uppfylla þörf fyrir heildstætt og nýstárlegt fræðsluefni um íslenska menningarsögu fyrir skólafólk og almenning.

Undirmarkmið
· Að efla skilning á íslenskum menningarverðmætum sem jafnframt er grundvöllur skilnings á verðmætum annarra menningarhópa.
· Að þróa nýstárlegar leiðir við miðlun menningarfræðslu í upplýsingasamfélagi og leggja grunn að hugbúnaði fyrir fræðsluefni um íslensk handrit og menningarsögu.

Leiðir að markmiðum
Fræðsluefni um íslenska menningarsögu er samið með því að:
Vinna úr þeirri fræðilegu þekkingu sem fyrir hendi er á íslenskum handritum og gera hana aðgengilegri fyrir skólafólk og almenning með notkun nýrrar tækni.
Miðla þekkingu byggða á rannsóknum höfunda á vitnisburði handrita um aðferðir við bókagerð og skrift, viðtöku- og félagssögu þeirra.

Markhópar
· Nemendur í grunn- og framhaldsskólum ásamt íslenskum börnum búsettum erlendis sem nýtt geta sér fræðsluefni á vef.
· Almenningur og ferðamenn.

Ávinningur
· Með notkun nýrrar tækni við miðlun menningarsögu er stuðlað að jafnara aðgengi nemenda og almennings að fræðslu óháð búsetu.
· Bætt er úr þörf fyrir kennsluefni á vef og menningarsögulegt fræðsluefni sem leiðir til aukinnar þekkingar Íslendinga og útlendinga á íslenskum menningarverðmætum.

Styrkveitingar til verksins 1998 - 2005

2010
Norræna ráðherranefndin (Nordisk Kulturfond) – 200.000 DKK.

2010
„Sögueyjan Ísland“, þátttaka Íslands á bókasýningunni í Frankfurter 2011 - 250.000 ISK.

2008
Norræna stofnunin við Christian-Albrechts háskóla í Kíl – 1.400 EUR.

2005
Clara Lackmanns fond - 20.000 sænskar krónur til þýðingar á norræn mál.
Den Arnamagnæanske Kommission í Kaupmannahöfn - tveggja mannmánaða styrkur.
Stofnun Árna Magnússonar - vinna vefara 168.000 kr.

2003
Den Arnamagnæanske Kommission í Kaupmannahöfn - tveggja mannmánaða styrkur.

2002
· Þróunarsvið menntamálaráðuneytis - 700.000 kr.
· Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna - 500.000 kr. framhaldsstyrkur
· Menningarsjóður Íslandsbanka - 300.000 kr.
· Stofnun Árna Magnússonar - 660.000 kr.

2001
· Þróunardeild menntamálaráðuneytis - 500.000 kr.
· Búnaðarbanki Íslands, menningarsjóður - 150.000 kr.
· Seðlabanki Íslands - 150.000 kr.
· Orkuveita Reykjavíkur - 100.000 kr.
· Menningarsjóður ÍslandsbankaFBA - 500.000 kr.
· Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna - 250.000 kr. framhaldsstyrkur

2000
· Landsbanki Íslands - 200.000 kr.
· Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna - 300.000 kr. starfsstyrkur
· Íslandsbanki - 75.000 kr.

1998
· Nýsköpunarsjóður íslenskra námsmanna 255.000 kr.

Upphaf verksins er skýrslan Handritin heima: farandsýning um íslensk handrit sem unnin var með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir Stofnun Árna Magnússonar. Stofnun Árna Magnússonar lagði höfundum til vinnulaun í þrjá mánuði til móts við styrk frá Nýsköpunarsjóði íslenskra námsmanna. Höfundar störfuðu ennfremur á þeim tíma við skrifstofustörf og leystu af safnakennara handritasýningu Árnastofnunar. Stofnunin greiddi einnig hönnunarkostnað tveggja fleka farandsýningarinnar, eins konar "frumgerðar" af sýningunni.

Skýrslan var tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands í janúar 1999. Verkið hefur verið þróað töluvert frá upphaflegu hugmyndinni þó handritsdrög og skipulag farandsýningarinnar séu grunnur vefsíðunnar.