Goð

Mörg goð koma við sögu í norrænu goðafræðinni. Hér á síðunni má sjá nokkur þeirra í túlkun Jakobs Sigurðssonar skálds og bónda sem uppi var á 18. öld og skrifaði og myndskreytti það handrit Snorra-Eddu sem kallast Melsteðs-Edda. Jakob skrifaði og skreytti mörg handrit á og hafa sum þeirra varðveist á Landsbókasafni.

Bókin barst til Kanada með íslenskum landnámsmönnum úr Þingeyjarsýslu á 19. öld og var í eigu fjölskyldu sem bar ættarnafnið Melsted og af því dregur bókin nafn sitt. Bókin var afhent Stofnun Árna Magnússonar að gjöf þann 13. febrúar 2000 af Erni Arnari Magnússyni ræðismanni í Minnesota og fjölskyldu hans, og ber nú safnmarkið SÁM 66.

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Ullur úr Melsteðs-Eddu SÁM 66.
Ullur var sonur Sifjar og stjúpsonur Þórs. Hann var afburða bogmaður og skíðakappi, fallegur og góður hermaður og því gott að heita á hann í einvígi.

 

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Óðinn úr Melsteðs-Eddu SÁM 66.
Óðinn var æðstur ásanna. Hann var guð skáldskapar og vígaferla. Óðinn lagði annað auga sitt að veði fyrir drykk úr viskubrunninum Mímisbrunni.

 

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Loki Laufeyjarson úr Melsteðs-Eddu SÁM 66.
Loki Laufeyjarson var hálfur þurs og hálft goð sem nefndur var frumkvöðull flærðanna og rógberi ása enda sífellt að valda vandræðum.

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Heimdallur úr Melsteðs-Eddu SÁM 66.
Heimdallur var sonur Óðins, vörður goðanna og gætti brúarinnar Bifrastar sem lá frá Ásgarði til Miðgarðs, mannheima. Lúður hans heitir Gjallarhorn og í hann átti hann að blása ef hættu steðjaði að Ásgarði.


 


© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima