Markmið
Að nemendur kynnist hinni fjölbreytilegu sagnahefð miðalda og skoði hana í samhengi við sagnahefð samtímans.
Til kennarans
Í upphafi má benda nemendum á að þörfin fyrir að segja sögu virðist sammannleg og sagnalist hefur verið stunduð óslitið frá alda öðli. Fólk er sífellt að miðla sögum en ef til vill í mismunandi formi eða með mismunandi miðlum. Til að leggja grunn að verkefnum má ræða hvernig svipuð mótív eða sagnaminni finnast víða í sagnaarfi ólíkra samfélaga. Mannleg samfélög eru nægilega lík til þess að sameiginleg viðfangsefni og reynsla manna, sem og söguefni af þeim sprottin, séu mýmörg og hafi almenna skírskotun. Gott væri að kynna nokkur minni eða mótív, s.s. Öskubuskuminni, kolbítsminni og hamskiptaminni fyrir nemendum.
Tilvalið er að hefja umfjöllun á að láta nemendur velta fyrir sér kvöldskemmtunum áður fyrr og nú en í þemaverkefni er fjallað um muninn á tvennum tímum sem og samkennum þeirra. Í þessu samhengi er komið inn á fleiri greinar bókmennta en einungis Íslendinga sögur, s.s. aðrar fornsagnagerðir, þjóðsögur og ævintýri, að ógleymdum kveðskap og e.t.v. húslestrum eða guðsorði.
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima