Markmið
Að nemendur átti sig á ólíkum lögmálum að baki munnlegum og rituðum flutningi til forna og um sjónarmið að baki texta.
Til kennarans
Gera má ráð fyrir að allt frá upphafi ritaldar og fram á síðustu öld hafi saga verið sögð og skrifuð jöfnum höndum, þar sem munnlegur flutningur sögu og ritun hennar útilokar ekki hvort annað. Til að skilgreina munnlega frásögn má benda á að flestir iðka einhvers konar frásagnarlist á degi hverjum, þó ekki væri til annars en að segja frá atburðum dagsins, skemmtilegu eða vandræðalegu atviki, brandara eða slúðri sem þeir hafa heyrt. Stundum eru frásagnirnar lengri, s.s. ferðasögur eða aðrar reynslusögur. Engu að síður er munnleg frásögn lítt iðkuð í samtímanum miðað við það sem tíðkaðist fyrir tíma hljóð- og myndmiðla og má því nota tækifærið og láta nemendur endursegja sögu eða flytja niðurstöður verkefna sinna munnlega til að þjálfa frásagnartækni þeirra.
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima