Lestur af bók

Markmið
Að nemendur átti sig á muninum á eigin lestri, lestarefni og lesháttum í samanburði við bókanotkun og lestur fyrr á öldum.


Til kennarans
Gott er að benda nemendum á að bóklestur var samfélagslegra fyrirbæri áður fyrr og oft las einn fyrir aðra á kvöldvökunni ólíkt því sem nú er þegar hver les fyrir sjálfan sig. Gjarnan er sagt frá slíkum lestri í endurminningum, sögulegum skáldsögum, eða skáldsögum frá fyrri tíð sem benda má nemendum á að skoða. Reyndar gætu ættingjar nemenda munað tímana tvenna í þessum efnum.

Til að nemendur átti sig á að félagslegt gildi bóka var allt annað áður fyrr og hve mikill munur er á bóklestri þá og nú má ræða að handrit voru lengi vel fyrst og fremst ætluð til lestrar fyrir aðra og til að minna sögumanninn á þegar hann kunni ekki nógu vel. Bókin var til traustari varðveislu en ekki til einkalestrar enda kunnu ekki nema útvaldir þá list. Jafnhliða tíðkuðust munnlegar frásagnir sagna og annars skemmti- eða fræðaefnis.

Til að gera nemendum grein fyrir mikilvægi og vinsældum bókarinnar um aldir má rekja stuttlega þróun bóklestrar frá fornu fari og fram á okkar tíma. Nefna má uppskriftarástríðu þeirra sem vildu eignast texta á bók, aldalanga hefð fyrir samnýtingu bóka, fyrstu lestrarfélögin en síðan bókasöfnin og bókabílana. Ennfremur má benda á lestur sagna í útvarpi eða í nestistímum þar sem lesið er fyrir áheyrendur. Jafnframt er hægt að nefna leshringi þar sem fólk les að vísu í einrúmi en kemur svo saman til að ræða efni bókanna. Allt eru þetta dæmi um samfélagslegt hlutverk bóklestrar en hvert stefnir í þessum efnum?


© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima