Markmið
Að nemendur kynnist kveðskaparlist frá fornu fari og átti sig á einkennum og skemmtanagildi hennar og beri saman við kveðskap og gildi hans í samtímanum.
Til kennarans
Kveðskapur er aldagamalt tjáningarform rétt eins og sagnalistin og var hann ekki síður liður í skemmtunum fólks þar sem iðulega voru kveðnar rímur eða farið með vísur. Hrynjandi, hljómfall, stuðlar og rím eru jafnframt ágætis minnistæki sem gerðu það að verkum að bundið mál varðveittist oft furðu vel og lítið brenglað um aldir. Tónlist gegnir oft stóru hlutverki í lífi unglinga og því er um að gera að tengja umfjöllunina við veruleika þeirra.
Í upphafi er gagnlegt að kynna nemendum stuttlega helstu frásagnarkvæði Íslendinga, annars vegar eddukvæðin og hins vegar rímurnar, feikivinsæla séríslenska kveðskapargrein sem var ein helsta skemmtun landans um ríflega fjögurra alda skeið. Þó að Íslendingar væru nærri sönglaus þjóð virðist kveðandi þeim í blóð borin. Sífelld leit að góðu söguefni leiddi til þess að efni úr vinsælum Íslendinga sögum og ekki síður riddara- og fornaldar sögum var endurunnið og sett saman í rímur. Á svipaðan hátt hafði efni goða- og hetjukvæða fyrrum verið skipað niður eftir bragreglum fornyrðislags og ljóðaháttar í eddukvæðum.
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima