Menntun og samfélag miðalda
Hvernig voru tækifæri til menntunar á miðöldum? Gátu allir farið í skóla eða voru það einungis útvaldir hópar sem höfðu aðgang að menntun?
Höfðu t.d. strákar og stelpur sömu tækifæri til að læra lestur og skrift eða var menntun mismunandi eftir kynjum?
Hvaða námsgreinar voru kenndar á miðöldum og hvar fór skólahaldið fram?
Af hverju voru tengsl milli kirkju og höfðingjastéttar öðru vísi hér á landi en í öðrum löndum Evrópu? Athugið sérstaklega ættartengsl og gerð samfélagsins í þessu samhengi.
Til kennarans
Hér má benda nemendum á umfjöllun um Menntun á miðöldum, hvernig henni var háttað og hvernig samfélagsgerðin, þ.e. tengslin milli kirkju og höfðingjastéttar, voru á öðrum nótum hér en víðast í Evrópu.
Helsta sérstaða íslenskrar miðaldamenningar er hin óvenjumikla og fjölbreytta sagnaritun sem þá var stunduð. Oft er leitað skýringa á því í samfélagsgerð þjóðveldisins sem nemendur eiga að kannast við og var frábrugðin því sem gerðist í öðrum ríkjum Evrópu.
Helstu tegundir og einkenni fornsagna
Eins og áður segir var stunduð fjölbreytt sagnaritun á miðöldum. Margskonar textar hafa varðveist í handritum þó Íslendinga sögur séu einna þekktasta bókmenntagreinin. Vert er að kynna hina blómlegu bóklist miðalda betur fyrir nemendum með stuttum textadæmum og útskýringum á hverri grein fyrir sig.
Frá hverju ætli sé sagt í heilagra manna sögum?
Af hvaða konungum er sagt í konunga sögum? Eru engar drottningar aðalpersónur í sögum?
Af hverju eru biskupa sögur og Sturlunga saga kallaðar samtímasögur? Eru þær ekki eldgamlar?
Er einvörðungu sagt frá Íslendingum í Íslendinga sögum? Hvenær urðu Íslendingar eiginlega Íslendingar?
Hvers konar riddarar skyldu vera söguhetjur í riddara sögum?
Ætli sé sagt frá skrímslum og óvættum í fornaldar sögum?
Gerðust einhver ævintýri á miðöldum sem gaman er að lesa í Miðaldaævintýrum?
Til kennarans
Margar tegundir sagna má finna í Netútgáfunni á http://www.snerpa.is/net/
Þessi hluti er í vinnslu en til stendur að setja inn textadæmi og skilgreiningar á hverri bókmenntagrein á næstunni.
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima