Skyggnst inn í skrifarastofu

Myndin er af skrifaranum Leonhard Wagner og málaranum Nikolaus Bertschi en við hlið hans situr eiginkonan Margareta. Skrifarinn
var á sínum tíma álitinn áttunda heimsundrið og á að hafa haft á valdi sínu 100 ólíkar skriftartegundir án þess að styðjast við forskrift.
Myndin gæti einmitt sýnt vinnuaðstæður þeirra sem unnu við skriftir og myndlýsingar handrita í upphafi 16. aldar.

Skrifarinn situr við skrifpúlt, íklæddur svörtum kufli og með gleraugu. Á skrifpúltinu eru þrjú nautshorn, með bleki og rauðum og bláum lit.
Eins og sjá má notar hann rauðan lit í línur og dálka, svart blekið í skrift og nótur, og bláan og stundum rauðan lit í upphafsstafi. Líklega
hefur málarinn dregið upp myndina og skrifað textann við hana þar sem nöfn þeirra hjóna koma fram. Í skrautinu fyrir aftan hjónin glampar
á gull. Graduale (Lorcher Chorbuch), Lorch 1511-12, Würtembergische Landesbibliothek Stuttgart Cod. mus. I 2 65, fol. 236v (Ausschnitt).