Myndskreytt síða sem sýnir bókagerð

Margar myndlýsingar frá miðöldum lýsa ágætlega starfi bókagerðarmanna. Hér að ofan má sjá 10 hringlaga myndir úr þýsku handriti,
Scriptorium monasticum, frá síðari hluta 12. aldar sem sýna öll stig bókagerðarinnar: skinnaverkun, skurð skinns og fjaðurpenna,
undirbúning ritunar á vaxtöflu og sjálfa ritunina. Þar að auki er unnið við bókbandið; fullskrifuð kver saumuð saman, tréspjöldin utan
um bókina útbúin og bindingar og spennur síðan festar á spjöldin. Þá er mynd af munki með fullgerða bók og að síðustu er mynd af
munki og lærlingi hans sem nemur af bókinni. Á stóru myndinni í miðjunni má einnig sjá myndlistarmann að störfum, í annarri hendi
hans er ílát með lit sem hann ber á skinnið með fjaðurstaf sínum eða bursta.
Bamberger Ambrosius handrit. Staatsbibliothek Bamberg, MSC. Patr. 5, fol. 1v.