Tvær bækur í tréspjöldum

Handritin tvö eru lögbókin Belgdalsbók AM 347 fol. og sagnahandritið AM 152 fol. Eins og safnmörkin gefa til kynna eru báðar
bækurnar af folio-stærð en engu að síður er greinilegur stærðarmunur á þeim. Handrit af sömu stærð, þ.e. folio, quarto, o.s.frv.,
geta hafa verið misstór frá upphafi enda voru blaðstærðir bókfells ekki jafn staðlaðar og pappísstærðir nú til dags. Sum skinn
voru einfaldlega stærri en önnur og úr þeim mátti gera stærri bækur, ef vilji var fyrir hendi. Á hinn bóginn er nokkuð algengt að
skorið hafið verið af spássíum handrita, t.d. ef þau voru mjög slitin á blaðjöðrunum, og það gæti átt sinn þátt í mismun handrita
sem þó flokkast undir sömu stærð.