Hamborgarbiblían
Myndstafir úr þýsku handriti frá 13. öld, svokallaðri Hamborgarbiblíu, sem varðveitt er í Kaupmannahöfn. Á myndunum er nokkrum verkþáttum í bókagerð lýst, allt frá því skinnið er keypt og til þess að bókin er skreytt. Þar sem engar íslenskar frásagnir eru til um bókagerð á miðöldum geta erlendar frásagnir, eða lýsingar á borð við þessa myndaröð, verið gagnlegar heimildir um hvernig bækur voru búnar til. Íslenskar bækur voru að öllum líkindum unnar á mjög svipaðan hátt og hér er sýnt, enda barst kunnátta í bókagerð til Íslands frá Evrópu. Það er samt ekki ólíklegt að aðferðir og efni hafi verið eitthvað öðruvísi og tekið mið af aðstæðum á Íslandi.

Í myndaröðinni eru munkar að störfum við bókagerð eins og algengast var í klaustrum. Greinilega þarf að huga að ýmsu áður en bókin er fullgerð.

 
Munkur og sútari
Fyrst þarf að útvega bókfell í bókina. Á myndinni kaupir munkur bókfellið af sútara eða skinnaverkanda en á milli þeirra sést ramminn sem skinnið er strengt á og þurrkað. Hálfmánalaga bjúghnífur liggur neðst á horni rammans. Hnífurinn hefur verið notaður til að skafa fullþurrkað skinnið áður en það var skorið úr rammanum. Sams konar hnífar eru notaðir við bókfellsverkun enn þann dag í dag.

 

 
Skinnið undirbúið
Næst þarf að undirbúa bókfellið undir skriftir með því að nudda holdrosann með vikursteini svo hann verði sléttur og gljáandi eins og háramurinn. Holdrosinn er sú hlið skinnsins sem snýr að holdinu en háramurinn, þar sem hárin voru, snýr út. Það er erfiðara að fá skinn holdrosans nægilega slétt til að gott sé að skrifa á það.

 

 
Arkir skornar
Þá er komið að því að skera bókfellið niður í hæfilega stórar arkir sem síðan eru brotnar saman, mismikið eftir því hvað bókin á að vera stór. Örkunum var raðað saman í kver sem yfirleitt voru átta blöð en það var alls ekki algild regla.

 

 
Markað fyrir línum og dálkum
Næsta skref er að marka fyrir línum og dálkum til þess að skriftin hallist ekki og skriftarflöturinn verði eins á öllum síðunum. Merkingin er ýmist gerð með hvössum hnífsoddi, krít, blýi eða penna og reglustiku. Stundum var skorið of djúpt í skinnið og þá sjást línurnar í því enn þann dag í dag.

 

 
Skrifað á skinnið
Skinnblöðin eru loks tilbúin og skriftir geta hafist. Hér sést skrifarinn með fjaðrapenna og leiðréttingarhníf á lofti en blekið er í horni á skrifpúltinu. Skriftir voru erfitt nákvæmnisverk og oft tók langan tíma að skrifa upp stórar bækur.

 

 
Handritið lýst
Að síðustu er komið að því að lýsa handritið eða myndskreyta það. Ekki eru öll handrit skreytt en yfirleitt eru kaflafyrirsagnir samt skrifaðar með rauðum lit. Myndskreytingar í handritum eru kallaðar lýsingar og er þá talað um að skreytt handrit séu lýst. Við lýsinguna dregur listamaðurinn upp fagra upphafsstafi eða skreytir jafnvel heilar síður.