10 hringlaga myndir úr þýsku handriti frá síðari hluta 12. aldar sem sýna handverk við bókagerð. Röð þeirra hér á eftir sýnir vinnuferlið sem munkar þessir virðast hafa stundað, allt frá skinnaverkun til bóklegrar kennslu. (Staatsbibiliothek Bamberg, Msc. Patr. 5, fol.m 1r)


 
1. Munkur við ramma með bókfelli
Myndin sýnir munk að störfum við skinnaverkun en aðferðin er einkennandi fyrir gerð bókfells. Eftir afhárun var skinnið strengt í ramma, þurrkað og síðan skafið með hálfmánalöguðum hníf til að fjarlægja hold- og hárleifar. Fullverkað bókfell var að síðustu tekið úr rammanum. Þó að munkurinn sé sýndur við skinnaverkunina er ekki víst að sá liður í gerð bóka hafi alltaf verið unninn innan klaustranna. Sums staðar erlendis hefur sá hluti verksins verið í höndum iðnaðarmanna, skinnaverkenda og sútara, sem störfuðu utan klaustranna.

 

 
2. Munkur að skera blöð

Hvert skinn var brotið og skorið í þá stærð sem hentaði í fyrirhugaða bók. Á myndinni sést munkur sníða síðurnar til með aðstoð beinskurðarstiku. Oft þurfti líka að fægja skinnblöðin með vikursteini til að gera yfirborð þeirra sléttara. Tilskornum blöðum var raðað saman í kver og merkt fyrir línum og dálkum áður en skriftir hófust. Stundum voru línu- og dálkamerkingar á síðunum gerðar með hnífi en einnig tíðkaðist að merkja fyrir þeim með blýi eða bleki.

 

 
3. Munkur með vaxtöflur
Myndin sýnir munk sem skráir uppkast texta með stíl á tvöfalda vaxtöflu. Gott var að nota vaxtöflur þar sem þægilegt var að leiðrétta villur og gera breytingar á þeim, ólíkt því sem gerist þegar skrifað er beint með bleki á bókfell. Töflurnar voru þannig gerðar að heitu vaxi var hellt í ramma en þegar það kólnaði var hægt að skrifa á það með stílnum. Auðvelt var að þurrka textann út með því að skafa yfirborð vaxsins burt og skrifa svo á það á nýjan leik. Þegar allt vaxið í töflunni hafði verið skafið burt var það endurnýtt, hitað og hellt í töfluna aftur.

 

 
4. Munkur með penna og hníf
Þegar bæði efnið í sjálfa bókina sem og texti hennar voru tilbúin var fátt að vanbúnaði og hægt að hefja skriftir. Þá lá beinast við að tryggja að blek og pennar væru til reiðu. Á miðöldum var svokallað barksýrublek algengast í Evrópu en Íslendingar þróuðu eigin aðferð við bleksuðu og notuðu efni úr íslenskri náttúru. Um aldir voru fjaðrapennar, gerðir úr fjöðrum stórra fugla, notaðir hér á landi og víðast í Evrópu enda sýnir myndin munk skera þannig penna til. Oddurinn eyddist líkt og á blýanti, skriftin varð þá feitari og tímabært að skera pennann aftur.

 

 
5. Munkur við skriftir með leiðréttingarhníf á lofti
Uppskrifir bóka voru stundaðar í mjög mörgum klaustrum á miðöldum. Vinnan var erfið og seinleg og ákaflega auðvelt að gera mistök. Myndin sýnir munk leiðrétta mistök við skriftir og skafa burt stafi með leiðréttingarhníf sínum, sem skrifarar höfðu ávallt við hendina. Á meðan er penninn vel geymdur á bak við eyra hans.

 

 

 
6. Munkur við bókband
Hver bók var yfirleitt sett saman úr mörgum kverum sem safnað var saman uns bókin var fullskrifuð. Þá var komið að því að binda hana inn. Kverin voru fyrst saumuð öll saman en síðan voru þau fest á langa hör- eða leðurþvengi. Myndin sýnir munk vinna við bókband og er hann að sauma bókina sem liggur á borðinu fyrir framan hann á uppistöðurnar, þ.e. þvengina, sem eru rauðlitaðir á myndinni. Þvengirnir voru festir við svokallaðan bókastól sem stendur á borðinu og notaður var við bókbandið.

 

 

 
7. Munkur með spjald og exi
Eftir að kverin höfðu verið saumuð á þvengina þurfti að útbúa spjöld utan um bókina. Bókarspjöldin voru gerð úr viði og á myndinni sést hvernig munkurinn snyrtir spjald til með exi sinni. Þegar spjöldin voru tilsniðin voru gerð nokkur göt á þau sem þvengirnir voru dregnir í gegnum. Síðan voru þvengirnir festir við spjöldin á þann hátt að tréfleygum var stungið niður í götin. Þá hélst bókin í spjöldunum.

 

 
8. Munkur með hamar
Sumir létu ekki nægja að binda bókina inn í spjöld heldur skreyttu líka spjöldin. Oft voru þau þá annað hvort klædd með skreyttu skinni eða í efni, t.d. útsaumað flauel. Jafnframt tíðkaðist að festa málmhorn, bindingar og spennur á spjöldin og var það bæði gert til skrauts og hlífðar þar sem hornin urðu oft fyrir hnjaski og það fór betur með bókina að geyma hana lokaða. Myndin sýnir munk sveifla hamri sínum sem hann hefur eflaust notað við lokafrágang bókbandsins.

 

 
9. Munkur með fullgerða bók
Á miðöldum var algengara að bækur væru lesnar upphátt frekar en að hver og einn læsi í einrúmi. Bækur voru nauðsynlegar fyrir kirkjuna enda er bókin, Biblían, sá grunnur sem kristin trú byggir á. Aðrar bækur voru einnig notaðar við helgihald, bæði voru lesnar útskýringar og útleggingar á ritningum biblíunnar og sögur sagðar af helgum mönnum, meyjum og píslarvottum. Í klaustrum var því algengt að unnið væri að bókagerð til að mæta þörf fyrir bækur sem slitnuðu við mikla notkun eða urðu ónýtar af öðrum sökum.

 

 
10. Munkur kennir lærlingi sínum
Háskólar voru fyrst stofnaðir í Evrópu á 12. öld. Fyrir þann tíma og reyndar mun lengur, fór kennsla yfirleitt fram innan vébanda kirkjunnar, s.s. við biskupssetur og í klaustrum. Á miðöldum höfðu ekki margir tækifæri til afla sér menntunar en þeir sem gátu það fengu oft töluverða einkakennslu. Algengt var kennslubækur væru settar upp sem samræður, lærlingurinn spurði skynsamlegra spurninga sem meistarinn svaraði. Með tilkomu háskólanna urðu fyrirlestrar algengari og nemendur fleiri. Myndin sýnir munk benda lærlingi sínum á texta bókarinnar sem þeir eru að ræða um. .