Uppskriftabók Árnastofnunar

Verkun bókfells 

Hráefni
: Skinn af kálfi, geit eða sauði. Nægilegt vatn. Kalk.
Áhöld: Bjúghnífur. Trérammi og bönd. Vikursteinn
 

Aðferð:
Láttu skinnin liggja í vatni í sólarhring. Skolaðu þau vandlega svo að allt blóð og óhreinindi hverfi. Leggðu því næst skinnin í kalkbað í 8 daga. Mikilvægt er að skinnin séu vatnssósa áður en þau eru lögð í kalkið sem á þá greiðari leið að öllum vefjum.

Eftir 8 daga eru skinnin orðin nægilega rotin til að hægt sé að skafa hárin af þeim. Að því loknu eru þau aftur sett í 8 daga kalkbað og skoluð úr hreinu vatni og látin liggja í því í 2 daga.

Í stað kalkbaðs má rota skinnin með því að leggja þau saman holdrosa við holdrosa og láta þau rotna þar til hárið losnar. Enn önnur aðferð er að binda nýflegið skinn með háraminn niður á bakið á kvígu og láta það vera þar í sólarhring, þá losna hárin án þess að rotnun komist í skinnið.

Strengdu skinnið með böndum á tréramma og skafðu með hvössum hnífi. Þurrkaðu skinnin í forsælu og fægðu með vikursteini en úðaðu um leið vatni á þau. Hertu að lokum böndin sem strengd eru á rammann til þess að jafna þensluna í skinninu. Þegar skinnin þorna aftur halda þau lögun sinni og eru tilbúin.

 


Brot og stærðir
:
Næst þarftu að ákveða hversu stóra bók á að gera. Í stærstu bækur er notað heilt skinn í hvert blað. Það eru tvíblöðungar, folio. Ef blaðið er brotið einu sinni og skorið í brotið fæst stærð fjórblöðungs, quarto. Ef brotið er enn einu sinni fæst stærð áttblöðungs, octavo og ef þú brýtur þá stærð færðu tólfblöðung, duodecimo.

Athugaðu að A3 samsvarar folio, A4 samsvarar 4to og A5 samsvarar 8vo. Litlar barnabækur og lífsviskubækur eru oft í tólfblaðabroti sem er minnsta brotið.

 

Pennaskurður

Þessi vísa er frá 18. öld og er oft kveðin við pennaskurð:
Þessi penni þóknast mér
því hann er úr hrafni;
hann hefur skorið geira grér
Gunnlaugur að nafni.

Hráefni:
Fjaðrir af stórum fuglum t.d. álftum, gæsum, helsingjum, hröfnum, krákum eða örnum. Betra er að nota fjaðrir af vinstri væng því þær fara betur í hendi (nema skrifarinn sé örvhentur).

Heitur sandur á pönnu.

Aðferð:
Skerðu oddinn af fjöðurstafnum. Dragðu merginn úr og taktu fanirnar af. Þegar búið er að stytta fjöðurstafinn skaltu slíta fanirnar af svo þær hvíli ekki óþægilega á hnúa vísifingurs.

Gott er að herða fjöðurstafinn með því að stinga honum í fínan sand sem hefur verið hitaður á pönnu. Að því loknu er penninn skorinn með beittum hnífi. Það er vandaverk.

Skerðu fyrst skáhallt af fjaðraoddinum, síðan upp í oddinn og reyndu að komast hjá því að fjöðrin klofni. Skerðu íhvolft inn að skorunni u.þ.b. hálft þvermál fjaðrarinnar. Skerðu nú bogadregið fram að oddinum til að fá pennalag á hann.

Gerðu það sama hinu megin við miðlínuna. Ef oddurinn er of íhvolfur að neðan skaltu sverfa eins lítið af fjöðurstafnum og hægt er. Til að ganga endanlega frá oddinum skaltu leggja hann á fjöl og þynna hann með hnífi, skerðu þá nærri lárétt fram eftir oddinum.

Fjaðrapennar slitna við notkun þannig að skriftin verður smám saman feitari eftir því sem lengur er skrifað. Þá verður þú að skera pennann að nýju.


Uppskrift að bleki

Kvæði frá 17. öld sem gott er að raula við blekgerð hefst svo:

Kenni eg (þó tungan óð að yrkja ei sé hög)
að sjóða blek úr sortulög

 

Hráefni:
Góður sortulitunarlögur sem inniheldur sortu og sortulyng.
6 spannarlangir ólaufgaðir víðileggir.

Best er að sjóða blekið í járnpotti.

 

Aðferð:
Settu sortulitunarlöginn í pott og láttu hann sjóða. Bættu víðileggjunum út í þegar suðan kemur upp. Láttu sjóða saman litla stund í lokuðum potti en taktu víðileggina síðan upp úr leginum.

Löginn skaltu seyða í potti með þéttu loki yfir hægum eldi en ekki láta sjóða svo velli, þangað til skrift með heitu bleki er skýr, en ekki lengur. Froðu sem myndast áttu ekki að henda heldur hræra hana saman við löginn með víðilegg.

Blekið verður svart, þykkt og gljáandi ef rétt er að farið.

Líklegt þykir að þessi aðferð við blekgerð sé gömul og blek unnið með þessari aðferð prýði flest íslensk miðaldahandrit.


Litir

Hráefni:
Litasteinar eða annað litarefni s.s. jurtir.
Eggjarauða, eggjahvíta eða fiskilím sem bindiefni.

Aðferð:
Myldu steinana niður í afar fíngert duft. Blandaðu því síðan saman við bindiefnið. Þá eru litirnir tilbúnir til notkunar.

Bókband

Hráefni:
Bókarkver
Tréspjöld
Línþræðir
Trétappar
Línþvengir eða leðurþvengir
Skinn til að klæða spjöldin

Aðferð:
Saumaðu kverin með línþræðinum á lín- eða leðurþvengi sem lagðir eru þversum á þrjá staði yfir kjölinn. Þræddu þvengina því næst gegnum gat á eikarspjöldum og festu þá með trétöppum sem þú stingur í götin. Sagaðu síðan trétappana alveg niður við eikarspjöldin.

Klæða má kjöl og spjöld með skinni, festa látúnsdoppur á hornin og setja spennsli á spjöldin til að loka bókinni, ef nægilegt fjármagn er fyrir hendi til kaupa á efninu.

Algengast er að binda skinnbækur í tréspjöld en einnig er hægt að binda kverin beint í skinnkápu. Þá er notuð sama aðferð nema að þvengirnir eru saumaðir beint á skinnkápuna.

Kleinur handritafræðingsins*

Hráefni:
4 stórir bollar hveiti
1 bolli sykur
125 g smjör
2 egg
3 tsk. lyftiduft
1 dl mjólk
kardímommur

Aðferð:
Deigið hnoðað vel, flatt að gegnsæismarki.
Kleinustærð fremur við hæfi barna en trölla.

* Uppskriftin er úr fórum Stefáns Karlssonar handritafræðings sem hefur stundað kleinubakstur meðfram fræðistörfum um langt skeið. Uppskriftin var fengin með eiginhandarriti Stefáns árið 1998 er hann var forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar. Hún er nú varðveitt undir safnmarkinu LogS nr. 1 12mo í fórum höfunda þessa vefs.