Fróðleiksmolar um stafsetningarvenjur Halldórs Laxness
Töluverð úlfúð stóð lengi um stafsetningarvenjur Halldórs Laxness sem gaf út fyrstu skáldsögu sína Barn náttúrunnar árið 1919, ári eftir að reglugerð um stafsetningu leit fyrst dagsins ljós, og umræðan um samræmda stafsetningu hafði verið í deiglunni um nokkurt skeið. Ágreiningurinn stóð einkum um hvort upprunasjónarmið eða framburðarsjónarmið ættu að ráða stafsetningu. Það varð ofan á að upprunasjónarmið fengju að ráða mestu um opinbera stafsetningu en stafsetning Halldórs Laxness vék allan hans rithöfundarferil frá henni þó hún virðist hafa verið í stöðugri þróun framan af.
Ein af reglum hinnar opinberu stafsetningar sem er í samræmi við upprunasjónarmið er að skrifa stutta sérhljóða á undan ng og nk, þ.e. langur skanki þó svo að framburðurinn sé auðheyranlega lángur skánki hjá flestum þeim sem tala íslensku. Eitt af frávikum Halldórs frá opniberri stafsetningu var að skrifa sérhljóð á undan ng og nk með broddstaf, í samræmi við nútímaframburð en ekki í samræmi við framburð fornmálsins: hríngur, hánki, úngur í stað hringur, hanki, ungur; dreingur en ekki drengur; laungum en ekki löngum; aungull en ekki öngull.Halldór sagði í grein árið 1941, sem birtist seinna í ritgerðasafninu Vettvángi dagsins, að hann fylgdi hinni endurbættu stafsetningu danska málfræðingsins Rasmusar Rasks, m.a. að skrifa breiða sérhljóða á undan ng. Þar segist hann hafa hætt að skrifa y um tíma en þurft að beygja sig undir hina formlegu stafsetningu af „viðskiftaástæðum“ hvað það varðaði þar sem enginn útgefandi vildi gefa bækur hans út með y-lausum orðum og skrifa t.d. firir, ifir í stað fyrir og yfir. Þetta virðist til marks um að hin formlega stafsetning hafi verið búin að festa sig nokkuð í sessi í kringum 1940.
Í textum Halldórs má jafnframt finna mörg dæmi um að smáorð sem ekki eru skrifuð í samræmi við stafsetningareglur. Þessi orð á að skrifa í tveimur eða fleiri orðum en Halldór spyrðir saman og því líkjast orðin fyrir vikið talmáli: uppí, útúr, einsog, afhverju, útámeðal, þángaðtil, þaðanafsíður. Sérvitringsháttur Halldórs varðandi stafsetningu endurspeglast í því að hann þurfti að skrifa leiðbeiningar fyrir prófarkalesara sinn áður en hann las yfir texta eftir hann. Halldór sagðist sjálfur telja að stafsetning ætti að fara bil beggja milli uppruna- og framburðarstafsetningar: „Ég hneigist að hagfeldri stafsetníngu sem ákvarðast í fyrsta lagi af framburði hins lifandi máls einsog það þykir fegurst talað, en hefur jafnframt hliðsjón bæði af orðauppruna og venju . . .“ (Vettvángur dagsins 1986: 185.)